Myndir hafa sitt eigið tungumál, myndmál og maðurinn hefur alla tíð notað myndir sem boðtæki þeirra hluta sem ekki er hægt að lýsa á annan hátt. Myndmál miðlar viðhorfum, skoðunum og hugmyndum samfélagsins ekki síður en tungumál og börn hafa ríka þörf til að tjá sig með myndmáli, m.a. um það sem þau sjá og ekki síður um hugsanir sínar og líðan.
Markmið:
- að efla sjálfstraust og sköpunargáfu barnanna
- að börnin þroski með sér einbeitingu og geti tjáð hugmyndir sínar og tilfinningar með myndum og ýmis konar táknum
- að þjálfa fínhreyfingar og samhæfingu augna og handa.
- að börnin læri að nota einföld tæki og verkfæri
Leiðir:
Myndsköpun er stór hluti af starfi Tjarnarborgar. Myndsköpun fer fram dag hvern í vali og hópatímum, bæði frjálst og skipulega. Leikskólinn sér börnunum fyrir fjölbreyttum tækifærum til að tjá sig í myndlist með ýmis konar efnivið. Við vinnum bæði einstaklingsverkefni og hópverkefni þar sem börnin þjálfast m.a. í samvinnu, þolinmæði og tillitssemi. Megináherslan er á sköpunarferlið sjálft sem er mikilvægt fyrir alhliða þroska og gefum börnunum tækifæri á að uppgötva sjálf, t.d. töfrana við að búa sjálf til liti! (grænan,fjólubláan o.s.frv.) úr grunnlitunum. Við tengjum viðfangsefnin nánasta umhverfi og hugarheimi barnanna. förum reglulega í vettvangsferðir, heimsækjum listasöfnin í nágrenninu og vinnum í kjölfarið með upplifanir barnanna. Virkjum ímyndunarafl og tjáningu barnanna með því að ræða við þau um verkefnin þeirra, þannig að þau læri að miðla hugmyndum sínum og tilfinningum til annarra.