Markmið hópavinnu er að efla félagsfærni barnanna. Í hópavinnu læra börnin að þekkja hvert annað og treysta. Það er grundvöllur að góðu samstarfi og vináttu. Þau læra einnig að taka tillit til annarra, samkennd eirra eflist og börnin læra að vinna sem heild að sameiginlegu markmiði. Börnunum er skipt í hópa eftir aldri og þroska og eru verkefnin/vinnan miðuð við hvern aldurshóp.
Tónlist er stór þáttur í leikskólastarfinu og sungið á báðum deildum daglega. Söngurinn er endalaus uppspretta gleði og fróðleiks. Söngurinn eykur orðaforða og eflir því málþroska. Tónlistin, bæði hlustun og iðkun ýtir undir jákvæð samskipti og samkennd.
Markmið
- að börnin noti röddina á fjölbreyttan hátt við tjáningu og söng
- að börnin öðlist jákvætt viðhorf til tónlistar og læri að njóta hennar
- að börnin fái að kynnast hljóðfærum og hljóðgjöfum með tilraunum og tónlistaflutningi
Leiðir:
Við lærum lög, texta og þulur. Lærum að syngja saman, að hlusta og þagna á réttum stöðum.
Í hópastarfinu eigum við líka okkar tónlistartíma. Þá gefst tækifæri til að vinna í víðara samhengi. Þá könnum við hljóðheiminn okkar, vinnum með ýmsa hljóðgjafa/hljóðfæri, vinnum með hugtök eins og t.d. sterkt/veikt, hátt/lágt, hrynjandi og takt. Við hlustum líka á alls konar tónlist, veltum henni fyrir okkur og hvað okkur finnst um hana. Þannig aukum við næmi fyrir hljóðum.
Á föstudögum komum við saman í salnum – Lækur og Tjörn. Þá syngjum við öll saman úr sameiginlegum sjóði eða notum tækifærið og flytjum eitthvað fyrir hina; æfum okkur í að stíga á stokk og láta ljós okkar skína.