Við viljum kenna okkur við uppeldisstefnu sem kallast Reggio Emilia.
Hugmyndafræði Reggio Emilia er runnin upp á norður Ítalíu. Sálfræðingurinn Loris Malaguzzi ásamt samstarfsmönnum sínum mótuðu starfsaðferðina. Loris Malaguzzi sagði að börn hefðu ,,100 mál” og það ætti að hvetja börnin til að nota öll sín skilningarvit og þá hæfileika sem þau búa yfir. Til að börn geti tjáð sig þurfa þau verkefni til að vinna úr og festa í minni reynslu sína. Hann sagði að leikskólinn ætti að vera lifandi staður í stöðugri þróun, þar sem börn og fullorðnir gætu verið í góðu sambandi hvert við annað. Leikskólinn á að vera í stöðugri þróun líkt og samfélagið.
Það sem einkennir Reggio skólana er fyrst og fremst trú á getu barna, og trú á að þau hafi vit og vilja til að taka þátt í og móta það starf sem fram fer. Áhersla er á lýðræði og að börn séu skapandi, sjálfstæð, virk og frumkvöðlar í sínu lífi en ekki bara fylgjendur. Reggio leikskólar líkjast verkstæðum og mikil fjölbreytni er í efnivið og vinnu. Námskráin er flæðandi og endurskoðuð reglulega og unnin eftir hverjum tíma. Í mörgum „Reggio –skólum“ er útfærslan á þennan hátt: Svokölluð verkstæðisvinna/stöðvavinna börnin geta valið verkstæði eftir áhuga sínum. Allur efniviður er sýnilegur og aðgengilegur fyrir börnin. Börnin eru þátttakendur í að móta það sem gert er og námskrána. Talað er um þrjá kennara það er barnið sjálft, hinn fullorðni (kennari og foreldri) og umhverfið. Umhverfi leikskólans þarf að vera skapandi og áhersla á að örva fegurðarskyn og áhuga barnsins. Miklar heimsspekilegar áherslur eru í starfi í anda Reggio Emilia, mikið er lagt upp úr samræðum, vangaveltum og þekkingarleit er í hávegum höfð.
https://www.italiakids.com/education-in-italy-the-reggio-emilia-method/