Það er góður andi í þessu gamla glæsilega húsi við Tjarnargötu 33 sem er leikskólinn okkar, Tjarnarborg. Húsið lét Hannes Hafstein ráðherra reisa árið 1909 sem ráðherrabústað. Árið 1941 keypti Barnavinafélagið Sumargjöf húsið og hóf rekstur dagheimilis, leikskóla og vöggustofu. Samhliða þeim rekstri starfaði í húsinu Uppeldisskóli Sumargjafar, sem síðar varð Fósturskóli Íslands og jafnframt gafst námsmeyjum skólans kostur á að leigja herbergi í risi hússins á því tímabili.
Leikskólinn Tjarnarborg hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 1990. Húsið sem er 365,6 fermetrar að stærð skiptist í tvær hæðir auk kjallara og ris. Í kjallara hússins eru fataherbergi barnanna, salur og myndlistaraðstaða en leikstofur eru á miðhæð hússins. Á efri hæð er skrifstofa leikskólastjóra, starfsmannaaðstaða og eldhús. Í leikskólanum eru 45 börn sem skiptast á tvær deildir, Tjörn 4-6 ára og Lækur 2-4 ára. Umhverfi leikskólans býður upp á óendanlega möguleika. Hér sitjum við í vöggu sögu og menningar Reykjavíkur, stutt í næstu söfn, leikhús og náttúruperlur, s.s. gamla kirkjugarðinn, Hljómskálagarðinn svo ekki sé talað um Tjörnina sem segja má að sé í túnfætinum. Við höfum verið í samstarfi við bæði Myndlistasafn Íslands og Þjóðminjasafnið.